Innlent

Vilja efla heimspekikennslu á landinu

BBI skrifar
Mynd/Getty
Nokkrir þingmenn með Þór Saari fremstan í flokki lögðu fram þingsályktunartillögu í dag um að efla heimspekikennslu í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Lagt er til að á grunnskólastigi verði kenndur einn heimspekiáfangi á hverjum tveimur árum en á framhaldsskólastigi verði kenndur einn áfangi á hverju ári.

Markmiðið er að heimspeki verði skyldufag á báðum skólaárum innan fjögurra ára og því er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra endurskoði aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla.

Sérstaklega er vísað til 8. bindis skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Af skýrslunni má draga þann lærdóm að nauðsynlegt sé að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umfræðu um gildi siðareglna. Það á að styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu og stuðla að gagnrýnni hugsun.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.Mynd/Vilhelm
Flutningsmenn tillögunnar eru Þór Saari, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Lilja Mósesdóttir. Í greinargerð kemur fram að tillögurnar myndu fela í sér talsverða breytingu á aðalnámskrá og því sé æskilegt að ráðherra fái fjögur ár til að innleiða breytinguna.

Tillagan var einnig lögð fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×