Innlent

Manninum haldið sofandi eftir sprengingu

Maðurinn, sem var staddur í íbúðinni í Ofanleiti í morgun þegar öflug sprenging varð, er haldið sofandi í öndunarvél. Ástand hans er alvarlegt en maðurinn er í lífshættu samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni. Hann er með mikil brunasár en ekki var hægt að fá nánari upplýsingar um ástand mannsins. Maðurinn gat gengið skömmu eftir sprenginguna en sjónarvottur sá manninn fyrir utan logandi íbúðina þegar sjúkraflutningamenn komu að og fluttu manninn á spítala.

Lögreglan rannsakar vettvanginn eftir að slökkviliðið lauk þar störfum í dag. Mikill eldur gaus upp eftir sprenginguna og fór mikill reykur inn á gang fjölbýlishússins og inni í einhverjar íbúðir.

Ekki er ljóst hvað olli sprengingunni en Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu sagði í viðtali við fréttastofu fyrr í dag að hann hefði ekki vitað um aðra jafn öfluga sprengingu í íbúðarhúsi í langan tíma. Vitni sögðu meðal annars að þau hafi haldið í fyrstu að um jarðskjálfta hefði verið að ræða. Einn sagðist hafa haldið í fyrstu að flugvél hefði brotlent í hverfinu. Sprengingin var svo öflug að glerbrotum rigndi yfir nálægan leikvöll. Þá brotnuðu rúður í nærliggjandi bílum auk þess sem glerbrot og brak mátti finna á svæði tugi metra frá húsinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×