Innlent

Benedikt leitar að grárri hryssu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á þessari mynd er Myrra, aðalstjarna myndarinnar. Hryssan þyrfti að vera lík henni.
Á þessari mynd er Myrra, aðalstjarna myndarinnar. Hryssan þyrfti að vera lík henni.
Benedikt Erlingsson leikstjóri leitar í dag með logandi ljósi að grárri hryssu sem gæti tekið þátt í mynd sem hann leikstýrir. Tökur á myndinni hefjast á mánudag. Stefnt er á að myndin verði frumsýnd á næsta ári.

„Ég er að leita að hryssu sem við megum leiða undir graðhest þann 27. næstkomandi. Ég vil kaupa folaldið og borga fyrir leiguna á henni. Hún er svona staðgönguhryssa fyrir leikstjörnuna sem er ekki tilkippileg," segir Benedikt.

Myndin sem Benedikt leikstýrir mun heita Hross, en um er að ræða leikna dramamynd. „Við erum að tala um dauða og kynlíf og allt það sem allar góðar sögur fjalla um með íslenska hestinn í forgrunni," segir Benedikt.

Benedikt segir að tökur muni fara fram á Hvítársíðu og vonandi í Skagafirði. Benedikt segir nauðsynlegt að sá sem á hryssuna geti haft samband fyrir morgundaginn.

Friðrik Þór Friðriksson framleiðir myndina ásamt Benedikt.

Áhugasamir geta látið vita af hryssum sem þeir kunna að eiga með því að fara á þessa fésbókarsíðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×