Innlent

Munu kalla eftir geðheilbrigðisáætlun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgvin G. Sigurðsson er formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Björgvin G. Sigurðsson er formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Tillaga um að unnin verði ný geðheilbrigðisáætlun fyrir fanga með geðraskanir verður lög fyrir Alþingi í haust. Þetta segir Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, en nefndin mun í heild sinni leggja tillöguna fram. Nefndin fundaði í dag með forsvarsmönnum fangelsismála, heilbrigðisyfirvalda og Geðhjálpar í morgun.

„Geðhjálp var með hugmynd um að það þyrfti að taka þetta út og vinna úrbætur á slíku plani og það tóku eiginlega allir undir þetta, að það væri eiginlega forsenda þess að það væri hægt að ná betur utan um þetta," segir Björgvin í samtali við Vísi.

Björgvin segir að það hafi verið niðurstaða fundarins að geðheilbrigðismál í fangelsinu væru í grunninn í ágætis lagi, þó það væru jaðartilfelli sem þyrfti að fást við. Sálfræði- og geðlæknaþjónusta sé í grunnin góð og ágæt. Hins vegar vanti úrræði og aðstöðu til að glíma við einstök tilfelli sem séu erfið. Menn sem séu á gráu svæði, á mörkum þess að geta verið í fangelsi og á mörkum þess að geta verið á geðdeild. Björgvin segist ætla að hefja undirbúning að þingsályktunartillögunni en nefndin eigi eftir að samþykkja það formlega að leggja hana fram.

„Það skiptir máli að geðheilbrigðismál séu í góðu lagi upp á það að það náist betrun í fangelsinu og að einstaklingar þar nái að þroska kosti sína,“ segir Björgvin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×