Innlent

Enginn bjór á landsleikjum í bráð

Boði Logason skrifar
Þórir Hákonarson og Katrín Jakobsdóttir
Þórir Hákonarson og Katrín Jakobsdóttir samsett mynd/vísir.is
„Almennt séð er mín skoðun sú að íþróttir fara ekki saman með áfengi. Mér finnst betur fara á því að þessu sé ekki blandað saman, án þess að ég sé að taka afstöðu til þessa máls," segir Katrín Jakobsdóttir, mennta- og íþróttamálaráðherra.

Heimir Hallgrímsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari í knattspyrnu, sagði á blaðamanafundi í gær að umræðan um hvort að selja eigi bjór á vellinum sé ekki ný af nálinni. „...Við erum smá risaeðlur í þessum málum. Þetta er leyft alls staðar annars staðar í heiminum en virðist voðalega erfitt á Íslandi," sagði hann.

Katrín segir að ef knattspyrnusambandið ætlaði að selja bjór á vellinum þyrfti að sækja um vínveitingaleyfi fyrir því hjá innanríkisráðuneytinu. „Mér finnst eðlilegt að íþróttahreyfingin ræði þetta innan sinna raða. Það yrði þá stefnubreyting innan hreyfingarinnar," segir hún.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að málið sé ósköp einfalt. „Þetta er bannað samkvæmt landslögum. Það er bannað að selja áfengi þar sem börn eru - end of story."

Spurður hvort að þetta sé eitthvað sem íþróttahreyfingin ætti að ræða sín á milli, líkt og Katrín bendir á segir hann:

„Það er bannað á öllum UEFA og FIFA-leikjum að selja áfengi. Það er bannað. Fyrir utan það er bannað að selja áfengi þar sem börn eru. Þú veist að það er aldurstakmark inn á vínveitingastaði? Það sama á við um þetta."

Spurður hvort að annað gildi um áfengisveitingar sem boðið er upp á Laugardalsvelli fyrir útvalda í svokallaðri "VIP-stúku" vallarins. „Þar er heimilt að vera með það."

Þórir bendir á að í nágrenni vallarins séu vínveitingastaðir sem gestir geta sótt fyrir leiki, ef þeir hafa áhuga á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×