Innlent

Réttarhlé fram í byrjun september

BBI skrifar
Réttarhlé í Hæstarétti stendur nú yfir og mun standa út ágústmánuð. Fyrsti málflutningur eftir réttarhléið fer fram 5. september næstkomandi.

Síðasti málflutningur fyrir réttarhléið var 15. júní. Síðan þá hefur hléið staðið yfir. Það þýðir þó ekki að engin mál komist að hjá réttinum, því úrskurðir og dómar eru kveðnir upp í málum sem þola enga bið, t.d. sakamálum og gæsluvarðhaldsúrskurðum. Hins vegar eru engin ný einkamál tekin fyrir.

Hæstaréttardómarar þurfa því að vera á nokkurs konar bakvakt og reiðubúnir að dæma í tilteknum málum, en um 50 dómar hafa að meðaltali verið kveðnir upp á meðan réttarhlé stendur yfir hjá Hæstarétti á undanförnum árum. Það þýðir að meðaltali að hver dómari dæmi í 16 málum meðan á réttarhlé stendur.

Við héraðsdóma landsins er það sama uppi á teningnum, réttarhlé stendur yfir en dómarar þurfa þó að taka á málum sem þola enga bið. Þar mun réttarhléið sömuleiðis standa út ágústmánuð samkvæmt upplýsingum frá Héraðsdómi Suðurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×