Innlent

Vindátt og viðbúnaður hindruðu náttúruspjöll í Elliðavatni

Hagstæð vindátt og mikill viðbúnaður slökkviliðsins eru talin hafa komið í veg fyrir náttúruspjöll í Elliðavatni, þegar sjö lítrar af smurolíu láku af vél jeppa, sem rann mannlaus út í vatnið um átta leitið í gærkvöldi.

Slökkviliðsmenn girtu olíuflekkinn af með girðingu, sem dregur í sig olíu. Hreinsibíll var kallaður á vettvang og dældi olíu úr yfirborðinu, kranabíll dró bílinn á land, og loks var felliefni sprautað yfir svæðið, sem braut niður brákina í yfirborðinu.

Eigandi bílsins, sem var að fara að veiða, hafði gleymt að setja hann í gír og handbremsu, þegar hann yfirgaf hann.

Aðgerðum lauk um klukkan tíu í gærkvöldi, en Elliðavatn er á vatnsverndarsvæði Reykvíkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×