Innlent

Ronan Keating: Frábært partí í kvöld

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Ronan Keating á Reykjavíkurflugvelli í dag
Ronan Keating á Reykjavíkurflugvelli í dag mynd/stöð 2
Írska poppstjarnan Ronan Keating mætti til Eyja síðdegis en hann segist hlakka til að spila þar í kvöld þrátt fyrir lítinn svefn. Við hittum á hann á Reykjavíkurflugvelli í dag.

Ronan Keating er eflaust best þekktur fyrir að hafa verið í einni vinsælustu strákasveit allra tíma, Boyzone. Hann hefur sömuleiðis átt nokkuð farsælan feril utan sveitarinnar, en hann er nú staddur á Íslandi og mun spila á Þjóðhátíð í eyjum í kvöld.

Hann kom til landsins í gær og kveðst hafa nýtt tímann vel.

„Þetta hefur verið frábært. Ég kom hingað í gær og sólin skein. Ég skrapp í golf, sem var frábært, mjög gaman. Ég fór út í gærkvöldi og borðaði stórkostlega sjávarrétti. Við erum á leiðinni á þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum. Ég hlakka til," segir Keating.

Hann segist hins vegar ekki vera vanur birtunni á Íslandi.

„Þegar ég fór í rúmið var býsna bjart og þegar ég fór á fætur var alveg bjart svo ég svaf illa. Ég svaf bara í svona fjóra tíma sem er frekar skelfilegt, en ég hafði verið varaður við þessu. En þetta var afar fallegur morgunn."

Hann skilji raunar ekki hvað sá sem stýri ljósunum á sviðinu í dalnum eigi að gera í kvöld.

„Ég veit ekki af hverju ég kom með ljósamanninn því ljósin munu ekki virka. En hann er hérna samt. Hann hefur ekki mikið að gera en þetta verður frábært. Ég hlakka til."

Ronan er írskur og gladdist þegar hann frétti af hverju Vestmannaeyjar draga nafn sitt.

„Ég veit að eyjarnar eru nefndar eftir nokkrum Írum, sem mér finnst mjög gott. Þetta voru írskir landnámsmenn sem sluppu frá víkingunum, held ég, og enduðu á þessum eyjum sem síðan voru kallaðar Vestmannaeyjar. Þetta er flott saga. Ég hafði heyrt af þessari hátíð og skipuleggjandinn sagðist búast við 15 þúsund manns í kvöld svo þetta verður stórt í sniðum," segir hann.

Þrátt fyrir stutt stopp, segist hann vera ánægður að hafa fengið að koma til landsins.

„Ég hef átt frábæran tíma fram að þessu og ég hlakka til tónleikanna. Það verður frábært partí í kvöld. Ég hlakka til."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×