Innlent

Þrjár nauðganir, tvær alvarlegar líkamsárásir og aldrei fleiri fíkniefnamál

Frá Vestmannaeyjum í gærdag.
Frá Vestmannaeyjum í gærdag. mynd/óskar p. friðriksson
Þrjár nauðganir eru til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum eftir Þjóðhátíðina sem lauk í gærkvöldi. Konurnar sem hafa kært kynferðisbrotin eru 17 ára, 18 ára og 27 ára. Nauðganirnar áttu sér allar stað inni í Herjólfsdal. Aldrei hafa fleiri fíkniefnamál komið upp á Þjóðhátíð og tvær alvarlegar líkamsárásarkærur liggja á borði lögreglu eftir helgina.

Á laugardagsmorgun kærði átján ára gömul stúlka nauðgun og var hún flutt á neyðarmóttöku fórnarlamba nauðgana í Reykjavík strax í kjölfarið. Tuttugu og tveggja ára gamall karlmaður handtekinn síðar um kvöldið. Honum var svo sleppt í gær þar sem lögregla taldi það ekki þjóna almannahagsmunum að hafa hann í haldi. Hann neitaði sök.

Á miðnætti í gær kærði önnur stúlka nauðgun og önnur í morgun. Stúlkurnar eru 17 ára og 27 ára gamlar. Þær voru fluttar á neyðarmóttöku nauðgana í Vestmannaeyjum og í dag verða þær fluttar til Reykjavíkur á neyðarmótökuna. Þær gátu gefið lýsingu á mönnunum sem grunaðir eru um verknaðinn og er þeirra leitað. Nánari upplýsingar fást ekki hjá lögreglu þar sem rannsóknin er á viðkvæmu stigi.

Í fyrra var tilkynnt um sex nauðganir á Þjóðhátíð og var einn maður dæmdur í fimm ára fangelsi vetur fyrir eina þeirra.

Þá komu upp 52 fíkniefnamál miðað við 37 í fyrra og 32 árið áður. Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Eyjum, segir að í flestum málanna sé um svokallaða neysluskammta að ræða, en aðallega eru það amfetamín, kókaín, maríjuna og ofskynjunarsveppir sem lögregla hefur gert upptækt.

Átta líkamsárásarmál hafa verið kærð til lögreglu, þar af tvö alvarleg. Í nótt var maður kýldur þannig að hann nefbrotnaði og tvær tennur brotnuðu og þá var annar maður sem réðist á fyrrverandi kærustu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×