Innlent

Brynjar er búinn undir fjaðrafok vegna umsóknarinnar

BBI skrifar
Brynjar Níelsson, fyrrum formaður Lögmannafélags Íslands.
Brynjar Níelsson, fyrrum formaður Lögmannafélags Íslands. Mynd/Vilhelm
Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður, er undir það búinn að umræða blossi upp í samfélaginu um mögulega skipun hans í embætti Hæstaréttardómara. Menn muni kalla hann umdeildan og hafa áhyggjur af að með skipun hans verði traust dómstóla fyrir borð borið.

Eins og fram kom á Vísi í dag er Brynjar á meðal þeirra sjö umsækjenda sem sóttust eftir tveimur embættum hæstaréttardómara sem voru auglýst laus til umsóknar á dögunum.

Brynjar gefur ekki mikið fyrir áhyggjur af þessum toga. „Ef menn mega ekki segja skoðanir sínar eða benda á hluti sem betur mega fara án þess að það kosti hann það traust og það orðspor sem dómari þarf að hafa segir það meira um fólkið í þessu landi heldur en margt annað," segir Brynjar. Hann segist meðvitaður um að skrif hans hafi farið öfugt ofan í marga, m.a. ýmsa þrýsti- og hagsmunahópa.

„Ég veit að um leið og þú hefur gagnrýnt ákveðið fólk í þessu samfélagi þá vill það ekki sjá þig sem dómara. Það er bara þannig," segir hann en bætir við ef menn í lýðræðissamfélagi geti ekki fengið nein embætti af því þeir hafa aðrar skoðanir en einhverjir hópar þá sé satt að segja ekki mikið í þá hópa spunnið.

Brynjari þykja áhyggjur af trausti dómstóla og persónu sinni alveg tilhæfulausar og hálfpartinn fjarstæðukenndar. Dómarar eigi einungis að dæma eftir lögunum og því eigi skoðanir þeirra engan þátt í starfi þeirra. Því sé nokkuð öfugsnúið að hafa áhyggjur af skoðunum dómara. „Auk þess er ég nú ekkert alltaf að lýsa skoðunum mínum þegar ég er að argast í fólki. Ég er bara að benda á ákveðnar misfellur," segir hann.


Tengdar fréttir

Hjónin Brynjar og Arnfríður sækja um stöðu hæstaréttardómara

Hjónin Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari og Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður eru bæði á meðal umsækjenda um embætti tveggja dómara við Hæstarétt Íslands, sem auglýst voru laus til umsóknar í byrjun júlí. Alls bárust sjö umsóknir um embættin en umsóknarfrestur rann út 1. ágúst. Auk hjónanna eru á meðal umsækjenda þeir Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson, en þeir eru báðir settir hæstaréttardómarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×