Innlent

Börn skuldara fá ekki inni á frístundaheimilum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Myndin er tekin úr Melaskóla. Myndin tengist fréttinni þó ekki beint.
Myndin er tekin úr Melaskóla. Myndin tengist fréttinni þó ekki beint.
Börn foreldra sem skulda borginni peninga fá ekki inni á frístundaheimilum borgarinnar. Þá má ekki heldur innrita þau á leikjanámskeið á vegum borgarinnar, eftir því sem Smugan greinir frá. Vefurinn segir fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar þannig brjóta í bága við þrettándu grein barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveði á um að ekki megi hegna börnum fyrir yfirsjónir foreldra.

Málið hefur ítrekað verið tekið upp, meðal annars af starfsmönnum ÍTR sem hafa óskað eftir breytingum þar sem þessar verklagsreglur stuðli að félagslegri einangrun barna sem eiga skulduga foreldra en það hefur mætt andstöðu hjá fjármálaskrifstofu borgarinnar. Málið er nú hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgarinnar.

Margrét Sverrisdóttir, stjórnaformaður Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, segir fráleitt að skuldir foreldra bitni á börnum með þessum hætti. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé hinsvegar ekki lögbundinn, og því sé ekki hægt að vísa til hans sem lagalegar stoðar í slíku máli. Hún segir að málið sé nýkomið á borð Mannréttindaskrifstofu borgarinnar en vonandi verði hægt að afgreiða það sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×