Innlent

Vitni fær að gefa skýrslu nafnlaust

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Annþór Kristján Karlsson leiddur út úr Héraðsdómi Reykjaness á dögunum.
Annþór Kristján Karlsson leiddur út úr Héraðsdómi Reykjaness á dögunum.
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að vitni í máli sem lögreglan rannsakar og varðar Annþór Kristján Karlsson og Börk Birgisson fær að gefa skýrslu án þess að gefa upp nafn. Þetta er í fyrsta skipti sem Hæstiréttur kveður upp slíkan úrskurð. Þeir Annþór og Börkur eru grunaðir um að hafa orðið samfanga sínum á Litla-Hrauni að bana.

„Dómur Hæstaréttar veldur mér miklum vonbrigðum. Með honum er gengið þvert gegn skýru orðalagi reglugerðar um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi á rannsóknarstigi á vitni samkvæmt 123. grein sakamálalaga," segir Hólmgeir Flosason, verjandi Annþórs Kristjáns Karlssonar.

Einu sinni áður hefur héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að vitni mætti gefa skýrslu nafnlaust. Það var einnig í máli gegn Berki Birgissyni en þá var hann grunaður um líkamsárás með exi. Hæstiréttur sneri úrskurðinum hins vegar við í því tilfelli.

Þeir Annþór og Börkur eiga að baki langa brotasögu og meðal annars er rekið mál gegn þeim fyrir Héraðsdómi Reykjaness þar sem þeir eru grunaðir um að eiga aðild að fjölmörgum alvarlegum líkamsárásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×