Innlent

Skólameistarar uggandi yfir niðurskurði

Erla Hlynsdóttir skrifar
Reyndustu skólameistarar eru uggandi yfir vetrinum vegna yfirvofandi niðurskurðar. Formaður félags framhaldsskóla segir að skilvirkustu sparnaðaraðgerðirnar séu þær sem verst komi niður á nemendum, sem nú þegar fái skerta þjónustu frá skólunum.

Um tvær vikur eru í að framhaldsskólar hefjist, vinna við fjárlög er á lokametrunum og hefur formaður fjárlaganefndar gefið út að gerð verði minni hagræðingarkrafa á framhaldsskóla en flestar aðrar stofnanir. Engu að síður er niðurskurður viðbúinn.

„Skólameistarar hafa verið uggandi undanfarin þrjú ár vegna niðurskurðarins sem hefur sífellt aukist, orðið meiri og meiri, og er orðinn slíkur nú að reyndustu embættismenn í stöðum skólameistara hafa sagt að dæmið gangi ekki upp," segir Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, formaður Félags framhaldsskóla.

Hún segir að á hverju einasta ári hafi þurft að skera niður og nú sé komið að þolmörkum.

„Menn hafa reynt að gera það sem hagkvæmast er, það er að stækka námshópa. Það skilar mestum sparnaði. Það þýðir að það er mjög mikið álag á kennara. Það hefur verið skorið niður hjá starfsmönnum í annars konar starfi, það hefur verið skorið niður í stuðningi við nemendur, ráðgjöf við nemendur, bókasafn og svo framvegis, sem þýðir að þjónustan við einstaklinginn, við nemendurna, hefur minnkað," segir Guðrún.

Guðrún Hrefna er skólameistari Fjölbrautaskólans í Breiðholti þar sem þegar er byrjað að huga að sparnaðaraðgerðum fyrir komandi vetur.

„Fyrst er það náttúrulega töflugerðin. Þá horfum við á kennslustundirnar sem við erum að bjóða, og við skerum niður og skerum niður og reynum að hafa þær ekki of margar. Það er bara þannig. Það er sú leið sem er skilvirkust í sparnaði en hún bitnar líka mest ánemendum," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×