Innlent

Telja alvarlegt að Valitor hóti almenningi

BBI skrifar
Talsmenn Wikileaks og Datacell segja Valitor hóta almenningi með því að segja að ef fyrirtækið fari að niðurstöðu héraðsdóms um að því beri að opna fyrir greiðslugátt fyrir kreditkort til DataCell setji það þjónustu við viðskiptavini í hættu, með því fyrirtækið eigi þá á hættu að vera útilokað frá viðskiptum við erlendar kortasamsteypur.

„Þessi orð verða ekki skilin með öðrum hætti en að Valitor ætli sér að bera á borð Hæstaréttar þau rök að hann verði að vísa til hliðar landslögum, ella eigi íslenskir korthafar á hættu þjónustuskerðingu vegna refsiaðgerða bandarísku kortarisanna VISA og MasterCard. Þetta rímar illa við fullyrðingar Valitors fyrir héraðsdómi að fyrirækið hefði ekki verið beitt þrýstingi til að loka á greiðslugátt DataCell," segir í yfirlýsingu frá talsmönnunum.

Valitor var í héraði dæmt til að opna greiðslugátt á kreditkort til DataCell svo síðarnefnda fyrirtækið geti tekið við greiðslum til WikiLeaks. Valitor hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar. Talsmenn DataCell og WikiLeaks fullyrða að ekki séu neinar lagalegar forsendur til staðar fyrir áfrýjun.

Í yfirlýsingunni segir að ljóst sé að Valitor taki fullan þátt í aðför gegn WikiLeaks með því að loka á greiðslugáttina. Það sé í raun ritskoðun og aðgerðin sögð vega að tjáningarfrelsi fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×