Innlent

Segir gullgrafaraæði í ferðaþjónustu

BBI skrifar
Mynd/GVA
Mikil aukning hefur verið í útgáfu ferðaskipuleggjendaleyfa á síðasta ári að sögn Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Ferðamálaskrifstofa náði á dögunum þeim áfanga að gefa út 500. leyfið á landinu.

Erna telur að enn séu brögð að því að fólk bjóði upp á ferðaþjónustu án tilskilinna leyfa en fólk sé þó smám saman að vakna til vitundar um að það þarf leyfi til að reka ferðaþjónustu. „Við gerðum heljarmikla könnun í fyrra. Þá var mjög slæmt ástand á gistimarkaðnum. Þá voru t.d. leyfislaus gistirými á höfuðborgarsvæðinu sem jöfnuðust á við Hótel Grand og Hótel Hilton samanlagt," segir hún. „Þá tók Ferðamálaskrifstofa vel á þessum málum og það eru mjög margir búnir að sækja um leyfi síðan. Ég geri ráð fyrir að þessi mikla aukning á leyfum megi að einhverju leyti rekja til þess."

Hún segir að þrátt fyrir aukninguna sé algengt að fólk rjúki til og byrji að selja þjónustu án þess að hugsa út í hvað til þurfi. Það sé hálfgert „gullgrafaraæði í ferðaþjónustu".

Erna segir mikilvægt að koma í veg fyrir það og fólk skilji að það þarf að fara eftir lögum í þessum efnum. „Þetta er ekki bara samkeppnismál. Þetta er líka öryggismál. Við viljum t.d. að eldvarnareftirlit skoði alla gistingu áður en hún er leigð út til ferðamanna," segir hún.

Það sem af er þessu ári hafa 70 ný ferðaskipuleggjandaleyfi verið gefin út, en þau eru nauðsynleg fyrir fólk sem býður almenningi ferðatengda afþreyingu. Ferðamálastofa gaf út fyrsta leyfið árið 2006 samkvæmt nýjum lögum um skipan ferðamála. Til að reka gistiheimili þarf aftur á móti annars konar leyfi sem fæst hjá sýslumönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×