Innlent

Reykvíkingar eigi góðar sundlaugar um alla borg

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frumáætlanir gera ráð fyrir að kostnaður við nýja útilaug við Sundhöllina á Barónstíg gæti kostað um 800 milljónir króna. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að fyrirhuguð bygging hafi verið til skoðunar frá því í vetur. Áætlanir, eins og þær líta út núna, gera ráð fyrir 25 metra laug, pottum og úti- og leiksvæði. Samkeppni um hönnun laugarinnar fer í gang á næstu dögum.

Reykjavíkurborg hefur verið með sundlaugarnar í Reykjavík til skoðunar að undanförnu og bætt úr þar sem þess hefur gerst þörf. Heitum potti hefur til dæmis verið bætt við í Árbæjarlaug og nú stendur til að leita samstarfs við einkaaðila um byggingu heilsuræktar við sundlaugina í Breiðholti.

Þá er verið að kanna staðsetningar fyrir framtíðarlaugar. Verið er að skoða byggingu laugar í Fossvogi, sem yrði gerð í samstarfi við Kópavog. Þá er jafnframt verið að skoða möguleika á framtíðarlaug í Úlfarsárdal og Grafarholti.

„Við erum að skoða þessi sundlaugamál með það til hliðsjónar að allstaðar í Reykjavík verði sundlaugar í góðu göngu- og hjólafæri við íbúa. Það er lykilatriði í lýðheilsustefnu að borgin sé góð til göngu og hjólreiða og það séu góðar almenningslaugar úti um alla borg," segir Dagur í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×