Innlent

Yfir þúsund farþegar á einum degi

mynd/Norðusiglingar
Ferðamannatíðin stendur nú sem hæst og svo virðist sem að áhugi ferðafólks á hvalaskoðun fari vaxandi. Fyrirtækið Norðursigling sem ferjað hefur fólk um hvalaslóðir frá árinu 1995 sló met á miðvikudaginn. Rúmlega þúsund ferðamenn skelltu sér þá í siglingu.

„Við fluttum yfir eitt þúsund ferðamenn, 956 á Húsavík og aðra 66 með Knerrinum sem siglir frá Ólafsfirði," segir Þorsteinn Jóhannesson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar. „Þetta gekk eins og smurt og hvalur sást í hverri einustu ferð. Við fengum bátinn Húna frá Akureyri til liðs við okkur og það hjálpaði mikið.“

Norðursigling hefur vaxið jafnt og þétt síðustu ár. Þá hefur farþegum fjölgað milli ára og bátum fyrirtækisins fjölgað úr einum í sex. Það eru því mikil tíðindi fyrir örtstækkandi fyrirtæki þegar met eins og þetta er slegið.

„Við höfum unnið mikið markaðsstarf á síðustu árum," segir Þorsteinn. „Í þessu tilfelli var búin að vera bræla í tvo daga áður og því voru margir sem ekki komust í siglingu. En þegar færi gafst reyndum við að koma öllum þeim sem vildu í hvalaskoðun."

mynd/Norðursigling
Þá bendir Þorsteinn á að Húsavík sé einstakur staður fyrir hvalaskoðun og flóinn fullur af lífi. Náttúrufegurð svæðisins sé einstök og laði ferðamenn í bæinn.

„Þetta er auðvitað alveg ótrúlega gaman og það er frábært að sjá hversu hæft starfsfólk við erum með. Og það er gaman að sjá hlutina ganga vel fyrir sig."

Þá er vert að benda á að ferðamannavertíðin hefur einnig verið góð hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants sem einnig er staðsett á Húsavík. Stökkvandi höfrungar og hnúfubakar hafa glatt farþega í ferðum fyrirtækisins.

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um Norðursiglingu hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×