Innlent

Fjögur þúsund á Landsmóti skáta

Gestum á mótssvæði Landsmóts skáta fer fjölgandi og straumur ferðafólks hefur legið á svæðið síðan síðdegis í gær, enda veðurspá helgarinnar góð. Fjöldi gesta fjölskyldubúða mótsins eru nú þegar kominn yfir eitt þúsund.

Í tilkynningu frá Landsmótinu segir að á mótssvæðinu öllu séu nú á fjórða þúsund gestir og mun fjölga áfram fram eftir kvöldi. „Gera má ráð fyrir miklu fjöri á Úlfljótsvatni í kvöld þar sem Ingó og veðurguðirnir munu stíga á svið og standa fyrir dansleik frameftir kvöldi. Í dag hafa úrslitaviðureignir í keppninni um skátaflokk Íslands farið fram auk þess sem skátarnir á mótinu hafa undirbúið sig fyrir gestagang morgundagsins. En á morgun verða tjaldbúðir skátanna og mótssvæðið allt opið í tilefni 100 ára afmælis íslensks skátastarfs og eru gestir boðnir hjartanlega velkomnir.

Skátarnir standa fyrir afmælisdagskrá allan daginn en mótinu lýkur svo annað kvöld með hátíðarkvöldvöku og mótsslitum sem hefjast kl. 20. Landsmót skáta hefur staðið síðan síðastliðna helgi og hafa um tvö þúsund skátar frá 18 þjóðlöndum skemmt sér við leik og störf í blíðviðrinu á Úlfljótsvatni. Íslenskir skátar hafa undanfarna áratugi haldið landsmót á um þriggja ára fresti og er mótið í ár það tuttugasta og þriðja. Fjöldi erlendra þátttakenda hefur fari vaxandi á undanförnum árum en nú sækja mótið um 600 erlendir skátar," segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×