Innlent

Undarlegt að Sæferðir séu eina fyrirtækið sem er kært

BBI skrifar
Hér sést bátur Sæferða, Særún, stoppa við fuglabjarg í skoðunarferð.
Hér sést bátur Sæferða, Særún, stoppa við fuglabjarg í skoðunarferð. Mynd/Frank Bradford
Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða, segir að það sé ekkert leyndarmál að fyrirtækið hafi farið með ferðamenn upp að arnarhreiðrum til að fylgjast með fuglunum. Hann hafnar því hins vegar algerlega að þeir beri sérstaka ábyrgð á því að arnarvarp hafi misfarist í Breiðafirði og Vestfjörðum. Honum finnst einnig undarlegt að Sæferðir séu eina fyrirtækið sem er kært fyrir skoðunarferðir á svæðinu.

Náttúrufræðistofnun Íslands kærði Sæferðir nýverið fyrir að koma of nálægt arnarvarpi, eins og sagt var frá á Vísi í morgun.

„Það er fjöldinn allur af bátum sem eru að fara fram og til baka á þessum svæðum. Svo það er svolítið skrítið að aðeins okkar bátur sé tekinn út," segir Pétur og finnst ólíklegt að þeir hjá Sæferðum fari nær hreiðrunum en aðrir.

Sæferðir hafa starfrækt skoðunarferðir að hreiðrunum síðustu 12 ár. „Það er ekkert leyndarmál. En við höfnum því algerlega að það sé okkur að kenna að varp hafi misfarist á einhverjum stöðum í Breiðafirði," segir Pétur Ágústsson og kannast heldur ekki við að ferðirnar valdi því að örninn fælist.

Pétur telur að Sæferðir séu eina fyrirtækið sem reynt hafi að sækja um leyfi fyrir skoðuninni og vinna í með yfirvöldum í þeim efnum. „Ég veit ekki til þess að neinn annar hafi sótt um slík leyfi, " segir hann og á við einhvers konar undanþágu frá nálgunarbanni á hreiðrin. Honum finnst ósanngjarnt að fyrir vikið séu Sæferðir eina fyrirtækið sem sakað er um lögbrot.


Tengdar fréttir

Arnarvarp með slakasta móti

Arnarvarpið var með slakasta móti í ár. Varp misfórst hjá meirihluta þeirra 45 para sem urpu í vor. Helsta ástæðan er að líkindum kuldakastið í maí og truflun af mannavöldum, segir á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.