Innlent

Arnarvarp með slakasta móti

BBI skrifar
Arnarstofninn er í vexti þrátt fyrir að tveir síðustu varpárgangar hafi verið slæmir.
Arnarstofninn er í vexti þrátt fyrir að tveir síðustu varpárgangar hafi verið slæmir. Mynd/Stefán Karlsson
Arnarvarpið var með slakasta móti í ár. Varp misfórst hjá meirihluta þeirra 45 para sem urpu í vor. Helsta ástæðan er að líkindum kuldakastið í maí og truflun af mannavöldum, segir á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Vitað er um 21 par með 28 unga sem verða fleygir í ágúst. „Varpið gekk ágætlega við Faxaflóa en afar illa við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Enginn ungi komst upp við norðanverðan fjörðinn og aðeins einn ungi er að verða fleygur um þessar mundir á Vestfjörðum," segir á vef Náttúrufræðistofnunar.

Arnarstofninn telur nú 69 pör og heilt á litið hefur hann vaxið frá árinu 2005. Vegna ofsókna fækkaði örnum hratt á seinni hluta 19. aldar en stofninn byrjaði að rétta úr kútnum árið 1964 eftir að hætt var að eitra fyrir refum. Þetta er annað árið í röð sem arnarvarp fer illa. Þrátt fyrir það eru horfur góðar með stofninn og hann í vexti.

Á vef Náttúrufræðistofnunar er ekki farið í grafgötur með hvers lags hegðun manna getur haft áhrif á stofninn. „Sæferðir, eitt helsta ferðaþjónustufyrirtækið við Breiðafjörð, gengur þar á undan með slæmu fordæmi og hefur siglt ólöglega að arnarhreiðrum og truflað fuglana á viðkvæmum tíma snemma vors," segir á vefnum en þar er einnig harmað að óprúttnir aðilar skemmi hreiður og komi upp fuglahræðum í grennd við þau.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×