Innlent

Selurinn Eva fær ekki að koma til Íslands

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Selur.
Selur.
Dýravinir sem björguðu íslenskum sel sem villtist og synti til Lincolnskíris í Bretlandi vilja senda hann aftur til Íslands. Þau geta það hins vegar ekki vegna andstöðu íslenskra yfirvalda. Það var hópurinn Skegness Natureland sem bjargaði selnum Evu í desember síðastliðnum. Þau fengu þau svör að óttast væri að Eva myndi bera sjúkdóma með sér. Málið hefur vakið athygli í Bretlandi og gerir fréttastofa breska ríkisútvarpsins, BBC, því ítarleg skil í dag.

Talið er að Eva hafi komið í heiminn einhversstaðar á svæði milli Íslands og Kanada. Hún hafði upphaflega villst til Friedrichskoog í Þýskalandi og var bjargað þar í ágúst á síðasta ári. Starfsfólk þar fitaði hana upp, setti leitarbúnað á hana og slepptu henni í von um að hún færi aftur til Íslands. Tækið á baki Evu sýndi að hún fór fyrst til Skotlands og Orkneyja en þaðan til austurstrandar Englands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×