Innlent

Vaxtamöguleikar í skógrækt á Íslandi óendanlegir

BBI skrifar
Mynd/Þröstur Eysteinsson
Á næstu 20 árum má gera ráð fyrir um 600 ársverkum við grisjun nytjaskóga á Íslandi. Aðalsteinn Sigurgeirsson á Mógilsá, forstöðumaður rannsóknarstöðvar skógræktar á Mógilsá, segir að þó það séu ekki mörg störf séu vaxtamöguleikarnir í greininni í raun óendanlegir.

„Við búum við þær aðstæður að við erum mjög fámenn þjóð í stóru landi," segir Aðalsteinn. „Þannig það er óhemju mikið land, sem nú er mjög rýrt, kostalítið og ofbeitt, sem mætti nýta að miklu leyti undir skógrækt." Það eina sem til þarf er viljinn að sögn Aðalsteins.

Þumalputtareglan er að 1000 hektarar af nytjaskógi skapi þrjátíu ársverk. Á Íslandi eru um 37 þúsund hektarar af ræktuðum skógi. Þar af eru um 20 þúsund hektarar nytjaskógur. Því má áætla að 600 ársstörf verði í skógrækt næstu tuttugu ár.

Þróun næstu áratuga í timburframleiðslu. Grisjunarafli er magn trjáa sem hægt er að fella án þess að ganga á skógana.Mynd/ Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá
Skógar á Íslandi eru mjög ungir, að meðaltali um 15 ára. Hægt verður að grisja milli fjögur og sex þúsund rúmmetra af ári næstu tuttugu árin ef miðað er við sjálfbæran árlegan grisjunarafla, þ.e. ef ekki er gengið um of á skógana. Það er ekki mikið og stendur engan veginn undir eftirspurn í iðnaðarstarfsemi á landinu. Eftirspurn fyrirhugaðra kísilverksmiðja á landinu gæti ein orðið um 670.000 rúmmetra af timbri á ári.

Á árunum 2030 - 2050 förum við að njóta góðs af aukinni gróðursetningarstarfsemi frá árinu 1990. Þá getur timburframleiðslan aukist mjög. Hún verður þó ekki meiri en fjórtán til tuttugu þúsund rúmmetrar á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×