Innlent

Human Woman troða upp á Faktorý

Íslensk Nýdanska dúóið Human Woman mun heiðra Íslendinga með nærveru sinni næstu helgi þegar þeir munu troða upp á Faktorý á laugardaginn næsta. Þrátt fyrir danskar tengingar þá er hljómsveitin alíslensk, en það eru þeir Gísli Galdur og Jón Atli sem skipa hið ofursvala dúó.

Hljómsveitin gaf út sína fyrstu breiðskífu í júní hjá sama útgáfufyrirtæki og gefur meðal annars úr tónlist Trentmöller og Kasper Björke.

Fyrstu tvær smáskífur Human Woman, „Delusional" og „Love Games" hafa fengið góða útvarpspilun víðsvegar um heim og tónlistarmyndbönd þeirra verið áberandi í á netmiðlum.

Bæði Gísli og Jón Atli eru búsettir í Danmörku þessa dagana og eru því æstir að koma til landsins að spila fyrir tónþyrsta Íslendinga. Í raun eru þeir svo æstir að það verður frítt inn á tónleikana.

Og dagskráin er ekki af verri endanum enda þeir félagar umkringdir fagmönnum er kemur að elektróník og almennu stuði. Hula Hoop dansarinn Beka Hoop, sem dansar í myndbandi Human Woman, kemur frá Berlín til þess að hrista skanka og Andri Freyr Viðarsson útvarpshetja ætlar að taka í hljóðneman eins og honum einum er lagið.

Eins og fyrr segir verða tónleikarnir á laugardagskvöldinu á Faktorý og má finna heimasíðu bandsins hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×