Innlent

Hundrað þúsund ferðamenn sækja Akureyri heim í sumar

Mikið var um manninn á Akureyri í gær.
Mikið var um manninn á Akureyri í gær. mynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Rúmlega 100 þúsund farþegar og áhafnarmeðlimir skemmtiferðaskipa heimsækja Akureyrarbæ í sumar. Bæjarstjórinn segir ferðamannaflauminn hafa mikla þýðingu fyrir bæjarfélagið, en um leið er þetta afrakstur umfangsmikillar markaðssetningar.

Rúmlega 60 þúsund farþegar heimsóttu Akureyri með skemmtiferðaskipum síðasta sumar. Séu áhafnarmeðlimir teknir með í dæmið má gera ráð fyrir að um 100 þúsund manns hafi sótt bæinn heim í fyrra.

„Nú skilst mér að bókanir hafi aukist um 35 prósent," segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri. „Þannig má áætla að rúmlega hundrað þúsund heimsæki bæinn sjóleiðis í sumar."

Um 65 skip leggja að höfn á Akureyri í sumar, að meðaltali eru um 3.500 manns í hverju skipi.

„Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur," segir Eiríkur. „Þá sérstaklega fyrir þjónustuaðilana. Þeir eru auðvitað vel þjálfaðir í þessu. Það hefur verið mikill stígandi í þessu síðustu ár."

Eiríkur bendir á að það sé ekki handahóf sem ráði för í þessum efnum.

„Það er mikil vinna sem liggur að baki. Markaðssetningin á höfninni hefur skipt sköpum. Þjónustan hér á Akureyri er síðan annað sem laðar rekstraraðila þessa skemmtiferðaskipa hingað."

Þá segir Eiríkur að veðurblíðan síðustu daga hafi einnig hjálpað til. Mikið líf sé í bænum — heimamenn sem og ferðamenn brosi hringinn þegar þeir ganga um bæinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×