Innlent

Merki um viðsnúning og atvinnuleysi lægra en á hinum Norðurlöndunum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Aðalhagfræðingur Landsbankans segir vísbendingar um að varanlegur jákvæður viðsnúningur hafi orðið í atvinnuhorfum hér á landi. Atvinnuleysið er 4,8 prósent og hefur ekki mælst lægra frá hrunárinu 2008 og er tveimur prósentustigum lægra en það var fyrir ári.

Vinnumálastofnun birti í dag nýjar atvinnuleysistölur, en það eru tölur yfir þá sem eru á atvinnuleysisskrá hjá stofnuninni, eru án atvinnu og óska eftir bótum. Atvinnuleysið mælist nú 4,8 prósent sem verður að teljast býsna gott. Tvær opinberar stofnanir hér mæla atvinnuleysi, en Hagstofan framkvæmir vinnumarkaðsrannsókn þar sem ekki eru aðeins þeir sem eru á bótum heldur einnig námsfólk sem er að leita að vinnu. Samkvæmt síðustu tölum Hagstofunnar var atvinnuleysið yfir 8 prósent í maí.

Lækkun í tölum Vinnumálastofnunar nemur 0,8 prósentustigum milli mánaða. En viðsnúningurinn er mun meiri sé miðað við sama mánuð í fyrra, eða tæp tvö prósentustig.

Daníel Svavarsson er aðalhagfræðingur Landsbankans. Hann segir ekki rétt að horfa eingöngu á síðustu mánuði, því ef horft sé ár aftur í tímann sé þetta þónokkur viðsnúningur.

„Á móti vega þarna sérstök úrræði hjá Vinnumálastofnun. Rúmlega 1550 manns sem eru núna í sérstökum úrræðum sem annars yrðu skráðir atvinnulausir og við vitum ekki ennþá hversu mörgum varanlegum störfum þessi úrræði munu skila, en engu að síður eru þetta mjög ánægjulegar tölur," segir Daníel.

Er hægt að draga þá ályktun að þetta sé varanlegur viðsnúningur? „Vonandi. Tvær síðustu birtu tölur eru mjög góðar, en maður vill helst sjá þróunina halda áfram."

Ísland kemur líka vel út í samanburði við hin Norðurlöndin. Daníel segir að ef litið sé til tölfræði síðustu mánaða standi aðeins Norðmenn okkur framar þegar lágt atvinnuleysi sé annars vegar. Tölfræðin hér veiti vísbendingar um betri horfur en í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. thorbjorn@stod2.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×