Innlent

Fríverslunarsamningur við Kína kláraður fyrir lok næsta árs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson segir mikið vináttusamband vera á milli Íslands og Kína.
Össur Skarphéðinsson segir mikið vináttusamband vera á milli Íslands og Kína. mynd/ gva.

Raunhæft er að áætla að lokið verði við gerð fríverslunarsamnings fyrir lok næsta árs, að mati Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Tvær lotur í samningaviðræðum um fríverslunarsamninginn fara fram á þessu ári. Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Að sögn Össurar hefur verið ákveðið að það verða tvær viðræðulotur á þessu ári. Sú fyrri í september í Peking og sú síðari hér í Reykjavík fyrir árslok. Stefnt sé á að ljúka viðræðunum eins hratt og auðið er. „Þegar Wen Jiabao kom hér í heimsókn fyrir skömmu var það hans eindregna ósk að þessi yrði freistað að ljúka fríverslunarsamningum á næsta ári - hugsanlega áður en hann lætur af embætti," segir Össur. Síðan þá hafi verið haldnir óformlegir fundir til að undirbúa þessar viðræðulotur.

Staðan í viðræðunum núna er sú að það sem ber út af er aðallega það að Íslendingar setja fram harðar kröfur um algert afnám tolla á sjávarafurðum, en því hefur ekki verið mætt. Á móti hafa Kínverjar verið með miklar kröfur um aukið svigrúm varðandi áritanir, dvalarleyfi og atvinnuleyfi sem Íslendingar hafa ekki getað sætt sig við vegna smæðar þjóðarinnar. „Þetta eru stærstu atriðin sem út af ber," segir Össur. Hann bætir við að hann sé vongóður um að samningaviðræðunum ljúki fyrir lok næsta árs, hugsanlega fyrr.

Össur segir að með Íslandi og Kína ríki sérstakt vináttusamband sem hafi verið undirstrikað með heimsókn forsætisráðherrans. Össur segir samningaviðræður við Evrópusambandið ekki neinu breyta um þessar samningaviðræður við Kína. „Ekki nokkru," segir hann. Hann bætir við að Kína sé fyrst og fremst framtíðarmarkaður. Viðskiptin séu ekki svo mjög mikil núna. „Kína er vaxandi markaður og með aukinni velsæld verður þetta stærsti markaður sem hægt er að slást um á næstu árum. Þá skiptir máli að hafa það forskot sem felst í fríverslun," segir Össur að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.