Innlent

Fyrsta póló æfing landsins

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Hið íslenska póló félag hélt sína fyrstu formlegu æfingu í dag í reiðhöll í Mosfellsbænum. Íþróttin hefur aldrei verið leikin hér á landi áður svo vitað sé en stofnandi þess óttast ekki að hún verði einungis fyrir ríka og fína fólkið.

Póló er ein elsta íþrótt í heimi en þrátt fyrir það barst hún ekki hingað til lands fyrr en í dag.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef pólókylfu á Íslandi og þetta verður fyrsta félagið. Við trúum því að íslenski hesturinn sé fullkominn í þetta, hann er náttúrulega rólegur og meðfærilegur. Og það sem er sérstakt er að okkar hestur er svo þýður að það verður auðvelt að hitta kúlurnar, það var erfiðara í Mongólíu. Þá eru þeir ekki eins þýðir, maður er bara á brokki eða stökki,“ segir Disa Anderiman.

Það er kannski ekki alveg hægt að dæma hæfileika þeirra sem tóku þátt í pólóinu í dag en ráðgert er að halda æfingar reglulega og útbúa styttri kylfur sem henta íslenska hestinum betur.

Hvernig tók hesturinn þessu? spyr fréttakona.

„Eins og hann hefði aldrei gert annað. Þaulvanur pólóhestur,“ segir Friðbjörn Garðarsson sem tók þátt í æfingunni í dag.

Er þetta erfitt? spyr þá fréttakona

Þetta er erfiðara fyrir mig en hestinn,“ svarar Friðbjörn.

Hvað hittirðu boltann oft?

„Ég myndi giska á svona í 20% tilfella,“ segir Friðbjörn.

Hefurðu áhuga á að stunda á þessa íþrótt? spyr loks fréttakona.

„Já, enginn vafi. Mjög gaman. Það verður gaman að sjá hvernig þróunin á pólóíþróttinni verður á Íslandi,“ svarar Friðbjörn því.

„Þetta er svona mesta snobbsportið sem þú kemst í en ég held að það verði ekki á Íslandi, við erum aldrei í neinu svoleiðis. Þetta er eins og það eru allir í golfi og það er ekkert snobb. Það er svo gaman af því, þetta verður svona sveitalegt íslenskt póló,“ segir Disa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×