Innlent

Saka stjórnvöld um að virða alþjóðasamninga að vettugi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórnvöld gera innflutning á landbúnaðarvörum eins erfiðan og mögulegt er og Samtök verslunar og þjónustu þurfa að nýta flest úrræði sem tiltæk eru að lögum til að knýja á um að farið sé að alþjóðasamningum í þeim efnum. Þetta segja forystumenn Samtakanna, þau Margrét Kristmannsdóttir og Andrés Magnússon í grein sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í dag. Þau segja það jafnframt dapurlegt að allir stjórnmálaflokkarnir á Alþingi virðist jafn áhugalausir um það að virða gerða samninga.

„Það hlýtur að teljast fáheyrt að hagsmunasamtök þurfi ítrekað að beita lagalegum úrræðum til þess að knýja á um að stjórnvöld virði samninga sem þau sjálf hafa gert! Það er engu að síður staðreynd málsins. Fullyrða má að staðan væri önnur ef um hefði verið að ræða vörn gegn útflutningshagsmunum þjóðarinnar. Þá hefðu stjórnvöld gengið hart fram fyrir skjöldu til varnar, eins og þau hafa margoft gert. Það er eins og íslensk stjórnvöld gleymi oft að alþjóðasamningar veita réttindi en leggja jafnframt skyldur á báða samningsaðila, ekki aðeins annan þeirra. Og íslensk stjórnvöld geta ekki valið hvaða alþjóðasamninga þau kjósa að virða," segja þau Margrét og Andrés í greininni.

Þau benda á að tilgangur þeirra samninga sem hér um ræði sé að efla alþjóðlega samkeppni með landbúnaðarvörur. Að viðskipti milli landa með þessar vörur geti, að hluta til a.m.k., farið fram án þess að lagðir séu á þær óhæfilegir tollar og gjöld. Þetta sé talið mikilvægt til þess að efla almenna hagsæld í heiminum, ekki síst til þess að bæta stöðu hinna vanþróaðri ríkja sem flest byggja afkomu sína á útflutningi landbúnaðarvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×