Innlent

Hnoðaði lífi í ókunnuga konu á bílaplani

Boði Logason skrifar
Atvikið átti sér stað sunnudaginn 8. júlí síðastliðinn á bílaplani N1 í Hveragerði.
Atvikið átti sér stað sunnudaginn 8. júlí síðastliðinn á bílaplani N1 í Hveragerði. mynd úr safni
„Við viljum hafa uppi á honum til þess að geta þakkað honum fyrir," segir Bryndís Vilbergsdóttir, systir konu sem fékk hjartastopp á bílaplani við N1 í Hveragerði fyrr í þessum mánuði. Maður sem átti leið um bensínstöðina hnoðaði í hana lífi þar til sjúkraflutningamenn komu á vettvang.

Orðsending hefur gengið á milli manna á Facebook undanfarið þar sem óskað er eftir því að þeir sem þekki til mannsins gefi sig fram við Bryndísi. Svo virðist vera að maðurinn hafi bjargað lífi systur hennar en atvikið átti sér stað sunnudaginn 8. júlí síðastliðinn.

„Þau voru stödd á bílaplaninu við N1 í Hveragerði þegar hún fór í hjartastopp. Eiginmaðurinn hennar tók hana út úr bílnum og þá kom aðvífandi maður sem tók til við að hnoða hana. Hann hnoðaði hana í um 10 mínútur eða þar til sjúkrabíllinn kom," segir Bryndís.

Starfsmenn bensínstöðvarinnar könnuðust ekki við manninn og svo virðist sem hann sé ekki frá Hveragerði. Bryndís segir að hann hafi eflaust átt leið hjá líkt og systir sín. Nú vill fjölskyldan hafa uppi á manninum til þess að getað þakkað honum fyrir þessa lífsbjörg.

Systir Bryndísar er nú komin á hjartadeild og hefur náð ótrúlegum bata.

Þeir sem þekkja til mannsins geta haft samband við Bryndísi í síma 848-1735.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×