Innlent

Eyðibýli brann til kaldra kola

Gissur Sigurðsson skrifar
Íbúðarhúsið að eyðibýlinu Hóli í Dalabyggð brann til kaldra kola í morgun. Ekki hefur verið búið í húsinu í eitt ár, en það er þó enn tengt við rafmagn. Vegfarandi sá eld og reyk, frá húsinu á sjöunda tímanum í morgun og hringdi hann strax á slökkvilið Dalabyggðar í Búðardal, sem er í um 20 kílómetra fjarlægð.

Þegar það kom á vettvang var húsið, sem var bárujárnsklætt timburhús, um það bil brunnið til grunna. Vegna langvarandi þurrka brugðu slökkviliðsmenn á það ráð að gegnbleyta allan jarðveg umhverfis húsið til að ekki kviknaði sina, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Eldurinn náði ekki til útihúsanna, sem standa nokkuð frá íbúðarhúsinu. Eldsupptök eru ókunn, en lögreglan í Dölum og Borgarfirði rannsakar málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×