Innlent

Snorri ætlar að leita stuðnings Kennarasambandsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Snorri Óskarsson, kenndur við Betel, sem var sagt upp störfum sem kennari í Brekkuskóla á Akureyri ætlar að leita eftir stuðningi Kennarasambandsins í máli sínu. Hann segir klárt mál að réttur sinn til að tjá sig hafi verið brotinn, en Snorra var sagt upp störfum eftir skrif um samkynhneigða á persónulegri bloggsíðu. Snorri er ekki búinn að tala við Kennarasambandið eftir að hann fékk uppsagnarbréfið. „Ég er bara búinn að leyfa þeim að fylgjast með áminningarferlinu, en ég er ekki búinn að setja mig í samband við þá eftir að ég fékk bréfið," segir Snorri.

Hann spyr hvort ekki sé eðlilegt að hann ræði málið við Kennarasambandið því þar sé hans bakland. Tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi séu grundvallaratriði. „Á maður ekki að hafa rétt til að segja hlutina, hvort sem maður er að segja einhverja vitleysu eða ekki? Það fái þá allavega að heyrast mismunandi sjónarmið og mismunandi álit. Það er svo sem enginn neitt öruggur í mörgum málum, um það hvað er hið rétta og hver er hin endanlega niðurstaða," segir Snorri. „Ef við ætlum að þagga niður allar spurningar, umræður, efasemdir og vangaveltur og fullyrðingar, þá held ég að íslenskt samfélag sé komið í svakalega vond mál," bætir hann við.

Snorri segir ekki víst hvenær hann mun leita til Kennarasambandsins. „Núna er júlímánuður og sennielga rekst maður á einhverja í sumarleyfi," segir hann. Þá segist Snorri ekki hafa fengið önnur atvinnutilboð. Hann bíði bara eftir þeim. „Eða þá að maður leitar sér annarra leiða. Ég er ennþá rólegur. Það eru ennþá fimm mánuðir til stefnu. En það borgar sig ekkert að bíða í fimm mánuði með það að leita sér að annarri atvinnu," segir Snorri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×