Innlent

Íslensk stjórnvöld styðja hertar aðgerðir gegn Sýrlandi

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Íslensk stjórnvöld lýsa yfir fullum stuðningi við hertar aðgerðir alþjóðasamfélagsins gagnvart Sýrlandi. Utanríkisráðherra ítrekar sömuleiðis fordæmingu á framferði sýrlenskra stjórnvalda.

Átökin héldu áfram á milli uppreisnarmanna og stjórnarhersins í Damaskus í Sýrlandi í dag. Uppreisnarmenn segja stjórnarherinn nú beita þyrlum og skriðdrekum í átökunum en þau hafa meðal annars staðið í miðborg Damaskus.

Ban Ki Moon, aðalritari sameinuðu þjóðanna, er nú staddur í Kína en hann hvetur aðildarríki Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að komast að samkomulagi um hvernig taka eigi á vandanum í Sýrlandi. Rússland og Kína hafa þó lagst gegn refsiaðgerðum.

Í yfirlýsingu frá Utanríkisráðuneytinu segir að íslensk stjórnvöld lýsi yfir fullum stuðningi við hertar aðgerðir alþjóðasamfélagsins gagnvart Sýrlandi. Tillaga þess efnis er nú til umfjöllunar á vettvangi öryggisráðsins.

Þá er haft eftir Össuri Skarphéðinssyni að hann fordæmi framferði sýrlenskra stjórnvalda og síauknar árásir vopnaðra sveita á þeirra vegum á almenna borgara. Voðaverk stjórnvalda í Sýrlandi brjóti í bága við alþjóðleg lög og fyrrum ályktanir öryggisráðsins.

Ísland hvetji því aðildarríki Öryggisráðsins til að sameinast um ályktunina sem kveður á um að gripið verði til þvingunaraðgerða framfylgi sýrlensk stjórnvöld ekki tafarlaus ályktunum ráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×