Innlent

Telpurnar fluttar til Danmerkur í gær

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Telpurnar þrjár, sem voru teknar með lögregluvaldi af móður sinni á föstudag, voru fluttar úr landi síðdegis í gær til Danmerkur. Lögmaður móðurinnar furðar sig á að börnin hafi ekki verið kyrrsett á Íslandi.

Við sögðum frá því um helgina að þrjár telpur á aldrinum fimm til átta ára voru teknar af móður sinni með lögregluvaldi á föstudaginn, og af heimili þeirra við Vindakór í Kópavogi. Aðstandendur móðurinnar höfðu safnast saman á staðnum og lögregla kallaði út liðsauka, þar á meðal sérsveitarmenn á merktum lögreglubílum og lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.

Danskur faðir telpnanna og íslensk móðir þeirra hafa átt í hatrammri deilu um börnin í tvö og hálft ár. Þann 16. janúar á þessu ári var þeim dæmd sameiginlegt forræði yfir börnunum, en lögheimili þeirra skyldi vera hjá föðurnum. Tveimur dögum síðar flytur móðirinn með dæturnar til Íslands, án vitneskju föðurins. Fréttastofa ræddi við lögmann móðurinnar í morgun, Vigdísi Ósk Sveinsdóttur. Hún furðar sig á að barnaverndarnefnd Kópavogs hafi ekki beitt neyðarráðstöfun og óskað eftir því við fulltrúa sýslumanns á vettvangi og lögreglu að stöðva aðgerðina á föstudaginn. Hún segir að sýslumaður hefði getað nýtt lagaheimild til að kyrrsetja börnin á Íslandi vegna nýrra gagna sem liggi fyrir í málinu. Að mati Vigdísar gáfu þessi nýju gögn, sem lúta að ásökunum móður í garð föðurins, fullt tilefni til að rætt yrði við börnin.

Þá staðfesti hún að Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður hefði sent erindi til velferðar- og innanríkisráðherra þar sem hann biðlar til þeirra að koma í veg fyrir að stúlkurnar yrðu fluttar af landi brott og sakar sýslumanninn á Höfn um afdrifarík mistök. Samkvæmt Pressunni segir Hreinn meðal annars í bréfinu:

Barnaverndaryfirvöld og velferðarráðherra geta enn gripið inn í og stöðvað þessa ógæfu og ég vona fyrir mitt litla líf að einhvers staðar sé manndómur og kjarkur á æðstu stöðum sem tekur af skarið í þágu barnanna og kyrrsetur þau á meðan málið er rannsakað ofan í kjölinn.

Ekki náðist í Hrein í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×