Innlent

Sjávarútvegsráðherrar funduðu um brottkast

Matvælastofnun Sameinuðu Þjóðanna áætlar að brottkast fiskafla í heiminum gæti numið rúmlega 7 milljónum tonna á ári hverju. Þetta kom fram á fundi sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsríkjanna í gær.

María Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, sjávarútvegsráðherrar og háttsettir fulltrúar frá Kanada, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Rússlandi tóku þátt í ráðstefnunni.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði á fundinum að samanlagður sjávarafli þátttökuríkja ráðstefnunnar næmi um 20 prósent af öllum sjávarafla heims.

Rætt var um sjálfbærni auðlinda hafsins á fundinum. Þar kom meðal annars fram að „heilbrigt lífríki hafsins, sjálfbærar fiskveiðar og sjálfbært fiskeldi í þágu fæðuöryggis og næringar skipta sköpum fyrir lífsviðurværi milljóna manna."

Í fréttatilkynningu kemur fram að fundarmenn hafi skipst á upplýsingum um fyrri reynslu og aðferðir til að takast á við brottkast.

„Til þess að ná því markmiði þurfa allir hagsmunaaðilar að koma að málum á öllum stigum og koma þarf á kerfi sem hvetur sjómenn til þess að landa og gera grein fyrir öllum afla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×