Innlent

Áhyggjuefni að enn býr fólk á Kópavogshæli

Karen Kjartansdóttir skrifar
Það er áhyggjuefni að enn búa tíu manns á Kópavogshæli. Það fólk nýtur ekki sömu réttinda og aðrir og því þarf að breyta. Þetta segir formaður Þroskahjálpar sem fagnar rannsókn sem á að gera á vist barna á stofnuninni.

Gerður Árnadóttir, læknir og formaður Þroskahjálpar, segir mikilvægt að aðbúnaður fatlaðra barna verði rannsakaður rétt eins og vistheimili ófatlaðra barna.

„Okkur fannst eðlilegt að ef menn væru á annað borð að skoða þessa sögu að þeir skoðuðu líka aðstæður fatlaðra barna. Þannig það er kannski aðdragandinn en ekki grunur um brot," segir Gerður.

Í lokaritgerð sem gerð var við Háskóla Íslands fyrir tveimur árum er rætt við nokkra fyrrverandi starfsmenn. Er þar sjónum beint að aðstæðum barnanna sem þar dvöldu.

Segir frá konu sem þar starfaði á sínum yngir árum. Höfundur ritgerðarinnar spyr hvort hún hafi orðið vitni að einhverju sem hún myndi kæra í dag svarar hún því til:

„Já, já, já, mikil ósköp og mér finnst bara asnalegt að viðurkenna það ekki, af því að ég óttast að ef við viðurkennum ekki fortíðina, þá getum við aftur búið til ljóta fortíð. Fortíðin hlýtur að þurfa alltaf að vera til."

„Allar erlendar rannsóknir segja okkur það að fötluð börn eru líklegri en önnur börn að verða fyrir ofbeldi og illri meðferð."

Gerður segir að reynslan hafi sýnt að stofnanir geti skapað varasamar aðstæður fyrir fatlaða, svo sem stórar stofnanir á borð við Kópavogshæli en slíkar einingar voru algengar á árum áður.

Á 10. áratug síðustu aldar var byrjað að hverfa af þeirri braut. Gerður segir að enn sé þó talsvert starf óunnið, til dæmis á Kópavogshæli en þar búa enn tíu manns. Sumir íbúanna hafa verið þar síðan þeir voru börn.

„Þannig við höfum ekki klárað þessa vegferð en það er kannski áhyggjefni að þeir sem búa á Kópavogshæli búa á sjúkrahúsinu og njóta ekki sömu réttinda og annað fólk. Þannig okkur hefur ekki lánast að klára það mál en það hafa auðvitað orðið breytingar til batnaðar. Ennþá býr fólk á stofnum á Íslandi og það er auðvitað eitthvað til umhugsunar fyrir okkur sem velferðarsamfélag," segir hún.


Tengdar fréttir

Ánægður með rannsókn á Kópavogshæli

Karlmaður sem vistaður var frá þriggja ára aldri á Kópavogshæli fagnar því að rannsaka eigi starfsemina. Það gerir einnig þroskaþjálfi sem þar starfaði. Þau segja að læra verði af mistökum fortíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×