Innlent

Ísbjarnarleitin kemur í staðinn fyrir æfingaflug gæslunnar

BBI skrifar
Leitin að ísbirninum kemur í staðinn fyrir æfingaflug hjá þyrlu Landhelgisgæslunnar. Því bætist í raun ekkert við kostnað gæslunnar þó þyrlan hafi flogið í um 13 klukkustundir allt í allt í leit að birninum. Þetta segir Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.

Eins og gefur að skilja er mikill kostnaður við leit að þessum toga. „Þegar gæslan leigir út þyrlu sína er yfirleitt rukkað um 650 þúsund krónur fyrir klukkutímann," segir Hrafnhildur en tekur fram að sjaldgæft sé að þyrlan sé leigð út með þeim hætti. Hins vegar mun kostnaðurinn í þetta sinn vegast upp á móti kostnaði sem annars hefði orðið af æfingaflugi gæslunnar.

„Það bætist í rauninni ekkert við kostnað gæslunnar," segir Hrafnhildur. „Þetta flug nýtist bara í þjálfuninni hjá gæslunni og satt að segja er hið besta mál að þeir fái raunverulegt verkefni að kljást við." Á móti mun æfingaflug gæslunnar styttast sem nemur þeim tíma sem hefur farið í leitina að birninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×