Innlent

Umhverfisstofnun kannar siglingar nærri arnarhreiðrum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mynd/ Af vef Náttúrustofu
Umhverfisstofnun kannar ábendingar um ólögmætar siglingar nærri arnarhreiðrum á Breiðarfirði. Engir ungar komust á legg í hreiðrum þar í fyrra.

Íslenski haförninn er alfriðaður og nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum. Frá 15. mars til 15. ágúst er óheimilt að koma nær arnarhreiðrum en 500 metrum nema brýna nauðsyn beri til. Umhverfisstofnun getur þó veitt undanþágu frá þessu banni. Sæferðir í Stykkishólmi óskuðu eftir slíkri undanþágu í ár og vildu sigla nærri arnarhreiðrum á Breiðafirði. Umhverfisstofnun synjaði beiðninni fyrir helgina. Tvö hreiður eru á svæðinu og í hvorugu þeirra komust ungar á legg í fyrra.

„Við teljum að það sé viðkvæmt varpið hjá erninum á þessu svæði núna og það hefur aðeins brugðist," segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri laga- og stjórnsýslu hjá Umhverfisstofnun. „Nú það skiptir líka mjög miklu máli að það sé farið að þessum skilyrðum sem hafa verið sett og það hafa verið aðeins vanhöld á því. Þannig að við teljum að til að gæta allrar varúðar þá sé eðlilegast að veita ekki þessa undanþágu núna."

Sigrún segir stofnunina hafa fengið upplýsingar um að fyrirtækið hafi hafið siglinar á svæðinu áður en úrskurður Umhverfisstofnunar lá fyrir.

„Það var byrjað að sigla áður en að við höfðum lokið okkar afgreiðslu," segir Sigrún.

Hún segir ábendingu hafa borist um að fleiri fyrirtæki hafi stundað þarna ólögmætar siglingar.

„Það hafa borist ábendingar um að það séu mögulega einhver fleiri fyrirtæki sem að séu að sigla án þess að hafa sótt um undaþágu og fengið. Við munum auðvitað kanna það og það kemur auðvitað bara í ljós í framhaldinu hvernig verður brugðist við því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×