Innlent

Rannsaka dauðsföll af völdum meðferðar á sjúkrahúsi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sérstök rannsókn er í gangi á Landspítalanum þar sem verið er að skoða hversu margir Íslendingar deyja af völdum meðferðar á sjúkrahúsi árlega hér á landi.

Við sögðum frá því í gær að hátt í fimm hundruð tilvik komu upp á Landspítalanum í fyrra þar sem lyfjagjöf til sjúklinga var röng. Atvikin voru misalvarleg en í þeim alvarlegustu var sjúklingum gefin röng lyf. Alvarlegustu lyfjaatvikin geta leitt til dauðsfalls en dæmi er um að slíkt atvik hafi orðið á spítalanum fyrir nokkrum árum.

Rannsóknir í nágrannalöndum okkar hafa sýnt að dauðsföll vegna meðferðar á sjúkrahúsum verða reglulega.

Ólafur Baldursson framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum segir nú sé í gangi í fyrsta sinn umfangsmikla rannsókn á sjúkrahúsum hér á landi, til að kanna hversu mörg dauðföll á spítölum má rekja til mistaka eða skaða vegna meðferðar. Slík atvik sé skráð sérstaklega á spítalanum.

„Við erum með það almennt í atvikaskráningu og svo er í gangi sérstök rannsókn sem að Landlæknisembættið kemur að," segir Ólafur. „Niðurstöður liggja ekki fyrir. Við höfum á Landspítalanum lagt áherslu á það að taka þátt í þeirri rannsókn og við viljum að sjálfsögðu upplýsa um alla svona hluti. Það er vakning á spítölum á Vesturlöndum hvað þetta varðar og við viljum að sjálfsögðu vera hluti af því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×