Innlent

Lokuðu sig inn á salerni flugvélar

Tveir ungir hælisleitendur fundust um borð í flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli í nótt. Vélin var á leið til Kaupmannahafnar og höfðu piltarnir læst sig inn á salerni vélarinnar. Nokkur seinkun varð á fluginu og eru drengirnir nú í haldi lögreglu.

Piltarnir fundust við reglubundna öryggisskoðun áhafnarinnar þegar hún kom um borð í vélina. Lögregla var kölluð til. Vélin fór síðan í loftið klukkan fimm í morgun.

RÚV greinir frá því að piltarnir eru hælisleitendur og að þeir búi á Fit-hosteli í Reykjanesbæ. Þeir komu hingað til lands fyrr á árinu og eru í hópi ungra hælisleitenda sem fjallað hefur verið um síðustu mánuði.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er málið litið alvarlegum augum enda er um stórfellt brot á öryggisbrot að ræða.

Piltarnir verða yfirheyrðir seinna í dag. Hefur lögreglan haft samband við túlk sem verður viðstaddur yfirheyrslurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×