Innlent

Réðust inn á heimili og héldu manni nauðugum í sex klukkustundir

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Tveir menn hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, grunaðir um að hafa brotist inn á heimili manns í Reykjavík og haldið honum nauðugum í sex klukkustundir. Þá eru þeir grunaðir um að hafa neytt manninn til að millifæra á reikninga sína verulegar fjárhæðir.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eru mennirnir grunaðir um að hafa ráðist inn á heimili manns í Breiðholti á meðan hann var sofandi, bundið hann og keflað. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að tenging hafi verið á milli mannana og fórnarlambsins.

Lögreglan segir þá jafnframt grunaða um að hafa haldið honum í sex klukkustundir nauðugum á heimili sínu og hafa neytt hann til að millifæra verulegar fjárhæðir inn á reikninga sína. Þá hafi þeir haft einhver verðmæti af heimili mannsins á brott með sér.

Lögreglan hafði upp á öðrum manninum innan við klukkutíma eftir að henni barst tilkynning um málið. Hinn var handtekinn u.þ.b. sólarhring síðar.

Annar maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald á laugardag en hinn á sunnudag. Þeir hafa báðir kært úrskurðinn til Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×