Innlent

Segir ruslmál á Íslandi í tómu tjóni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Reglur sem neyða Skaftárhrepp til að loka sorpbrennslunni á Kirkjubæjarklaustri eru fáránlegar, segir sveitarstjórinn, og telur mun verra fyrir umhverfið að urða sorpið. Hreppurinn stendur frammi fyrr því að hafa ekki efni á að kynda skólann og sundlaugina.

Skaftárhreppur þarf að óbreyttu að loka sorpbrennslustöðinni á Klaustri um næstu áramót vegna reglugerðar sem tók gildi í vor. Eygló Kristjánsdóttir sveitarstjóri segir að mjög gott fólk vinni hjá Umhverfisstofnun. Reglurnar sem það þurfi að vinna eftir séu hins vegar fáránlegar.

Þótt díoxín í reyknum frá stöðinni hafi mælst yfir viðmiðunarmörkum segir Eygló að annað gildi um jarðveginn í grennd. Svæðið hafi komið betur út en viðmiðunarstaður.

„Þannig að hér er ekki díoxín í jarðvegi," segir Eygló.

Góðan árangur þakkar hún því að allir hafi þrjár tunnur. Íbúarnir flokki allt sorp. Henni líst ekki á að þurfa að urða allt sorpið.

„Viljum við virkilega grafa upp heilu og hálfu hektarana til þess að urða sorp þegar hægt er að gera þetta öðruvísi?" spyr Eygló.

Þarna nýtist sorpbrennslan til að hita upp sundlaugina, skólann og íþróttahúsið en enginn jarðhiti finnst á Klaustri. Að geta þannig kynnt upp sín helstu mannvirki skiptir sköpum fyrir sveitarfélag sem er fjárhagslega eitt hið verst stadda á landinu. Eygló segir að til að mæta þessu þurfi sveitarfélagið að finna einhversstaðar hálfa milljón á mánuði til að greiða RARIK. Þetta sé því einnig fjárhagsleg spurning.

Hún hvetur umhverfisráðherra til að endurskoða reglurnar og leyfa áfram sorpbrennslu.

„Þetta er besta leiðin til förgunar á sorpi, langbesta leiðin," segir Eygló og kveðst ekki trúa því að betra sé að brenna eldsneyti með því að aka ruslinu til urðunar á Álfsnesi eða sigla með það til útlanda, eins og Eyjamenn íhugi.

„Ruslamál á Íslandi eru í tómu tjóni, allsstaðar á Íslandi. Í tómu tjóni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×