Innlent

"Ég verð forseti fólksins"

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, forsetaframbjóðandi.
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, forsetaframbjóðandi. mynd/andreaolafs.is
„Þau völd forsetans sem sett voru í stjórnarskrá á sínum tíma er vald fólksins, ekki forsetans. Lýðræði þýðir beinlínis að fólkið ræður. Þó svo að þingræði sé hér til staðar þá hefur fólkið völd í gegnum forsetann. Fólkið framselur vald sitt til hans og hann talar fyrir þau."

Þetta segir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, forsetaframbjóðandi, en hún var gestur í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Þar ræddi hún um forsendur framboðs síns og hugmyndir sínar um hlutverk forsetans.

„Ég verð forseti fólksins," segir Andrea. „Þetta er það sem framboð mitt gengur út á. Ætlun þjóðarinnar var aldrei sú að þingið hefði óheft vald. Það var tekin meðvituð ákvörðun um það að þjóðin ætlaði ekki að hafa fulltrúalýðræði þar sem fulltrúarnir hefðu alræðisvald."

Þá telur Andrea að forseta beri skylda til að hlusta á vilja þjóðarinnar og að beita valdi sínu þegar gjá hefur myndast milli hennar og Alþingis.

Bessastaðir
Framboð Andreu er að stórum hluta til byggt á skuldavanda heimilanna og leggur hún miklar áherslur á þau málefni. „Ég set þessi mál á oddinn, einfaldlega vegna þess að ég tel þetta vera stærsta mál okkar samtíma. Með því að gefa framboði mínu atkvæði þá eru kjósendur að senda skýr skilaboð, með þverpólitískum hætti, til yfirvalda um það að það vilji leysa skuldavanda heimilanna."

„Við þurfum að ná sátt í samfélaginu," segir Andrea. „Einmitt vegna þess að við viljum horfa til framtíðar og hefja uppbyggingarstarf."

„Ég vil spá því að þetta verði ekki tveggja turna barátta," segir Andrea aðspurð út í þrjár skoðanakannanir sem birtust fyrir helgi. Þar voru þau Þóra Arnórsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson efst og var mikill munur fylgi þeirra og meðframbjóðenda.

„Kosningabaráttan er rétt að byrja. Það getur verulega mikið gerst. Þetta verða mögulega fjórir frambjóðendur sem munu slást um fylgið. Ég er á uppleið og maður verður að bera bjartsýnn."

Hægt er að hlusta á áhugavert viðtal við Andreu hér fyrir ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×