Innlent

Megintenging innan Vestfjarða ófær í fjóra mánuði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Snjómokstur er ekki mögulegur á Hrafnseyrarheiði, að mati Vegagerðarinnar.
Snjómokstur er ekki mögulegur á Hrafnseyrarheiði, að mati Vegagerðarinnar.
Vegagerðin hefur frestað því að opna Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði en þær hafa báðar verið meira og minna lokaðar undanfarna fjóra mánuði. Ráðamenn á Vestfjörðum segja ástand vegamála þar ömurlegt.Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði eru á miðhluta Vestfjarða en þær hafa verið meira og minna verið lokaðar frá því í nóvember og alfarið frá 12. desember. Það þýðir að þessi megintenging milli helstu þjónustukjarna Vestfjarða, Ísafjarðar og Patreksfjarðar, er búin að vera ófær að mestu í fjóra mánuði.Vegagerðin segir að í gær hafi snjóalög verið skoðuð á Hrafnseyrarheiði en niðurstaðan hafi verið sú að aðstæður væru enn þannig á heiðinni að mokstur væri ekki mögulegur vegna mikilla og óstöðugra snjóalaga. Sama gilti um Dynjandisheiði, þar væri enn mikill snjór og óhagstætt veður undanfarið hefði ekki bætt ástandið. Segir Vegagerðin að fylgst verði með framvindu mála og staðan endurmetin en ljóst sé að aðstæður þurfi að breytast verulega til að mokstur verði mögulegur.Formaður bæjarráðs Ísafjarðar, Eiríkur Finnur Greipsson, sagði í viðtali á Stöð 2 í síðasta mánuði að ástand samgöngumála á Vestfjörðum væri ömurlegt og að ríkisstjórnin gæti ekki skýlt sér á bakvið hrunið þegar loforð um úrbætur væru svikin. Eiríkur Finnur sagði tómt mál að tala um endurreisn atvinnulífsins án samgöngubóta.Dæmi um afleiðingar þessa ástands er að starfsmenn fiskeldisfyrirtækisins Dýrfisks, sem er með starfsstöðvar bæði á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum, hafa í vetur þurft að aka 520 kílómetra vegalengd um Hólmavík, eða yfir eitt þúsund kílómetra fram og til baka, til að komast milli vinnustöðva á Þingeyri og Tálknafirði. Ef fært væri um heiðarnar væri leiðin 115 kílómetra löng.Samkvæmt samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir að ástandið lagist næsta áratuginn með Dýrafjarðargöngum og nýjum vegi yfir Dynjandisheiði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.