Innlent

Tóku Icesave-vandann mjög alvarlega

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgvin G. Sigurðsson segir að Icesave vandanum hafi verið tekið af mjög mikilli alvöru.
Björgvin G. Sigurðsson segir að Icesave vandanum hafi verið tekið af mjög mikilli alvöru. mynd/ gva.
Íslensk stjórnvöld tóku Icesave-vandann mjög alvarlega, af því að hann ógnaði stöðugleika á viðkvæmum tímum," sagði Björgvin G. Sigurðsson í vitnaleiðslum fyrir Landsdómi nú skömmu fyrir hádegið. Hann sagði að vandinn hefði oft verið ræddur. Í huga Geirs Haarde hafi aldrei komið til greina að Ísland tæki á sig ábyrgð á reikningum sem íslensk yfirvöld tóku engan þátt í að stofna.

„Ég veit ekki hvernig í veröldinni Darling datt í hug að 300 þúsund manna þjóð ætti að taka á sig mörg hundruð milljarða skuldir," sagði Björgvin um viðbrögð Alistairs Darling þáverandi fjármálaráðherra Breta. Íslensk yfirvöld áttu fund með Darling til að ræða vandann vegna reikninganna.

Björgvin G. Sigurðsson segir að markvisst hafi verið unnið að því að koma Icesave reikningum Landsbankans í dótturfélög á árinu 2008. Málið hafi verið sett í ákveðinn farveg, en þegar leið á árið virtist sem áhugi breska fjármálaeftirlitsins á þessu verkefni hafi dvínað. Þetta hafi meðal annars lýst sér í því að breska fjármálaeftirlitið gerði algerlega óraunhæfar kröfur um það eigið fé sem Landsbankinn átti að flytja inn í breska dótturfélagið.

„Það var ekki tilefnislaust markmið," sagði Björgvin þegar Sigríður Friðjónsdóttir spurði hann hvort þeir hafi talið hættu á ferðum vegna þess hve lítið væri í íslenska innistæðutryggingasjóðnum. Hann sagði þó að það hefði ekki verið séríslenskt vandamál hve lítið hefði verið í sjóðnum. Þetta hefði líka átt við í Bretlandi.

Björgvin sagði að það hefði fyrst og fremst verið vegna ágreinings breska fjármálaeftirlitsins, íslenska fjármálaeftirlitsins og Landsbankans að ekki hafi tekist að koma Icesave inn í dótturfélag Landsbankans á Bretlandi áður en yfir lauk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×