Innlent

Eins og dauðvona krabbameinssjúklingur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Arnór Sighvatsson.
Arnór Sighvatsson.
„Þarna var dauðvona krabbameinssjúklingur að fá hjartaáfall" sagði Arnór um fall bankanna þegar hann bar vitni fyrir Landsdómi nú eftir hádegið. Hann sagði að lausafjárvandi banakanna væri eins og hjartaáfall en eiginfjárvandi eins og krabbamein fyrir banka.

Lausafjárvandræðin voru öllum orðin ljós þegar komið var fram á árið 2008, en Arnór segir að farið hafi að bera á vandanum sem steðjaði að íslenska bankakerfinu árið 2005. Þá hafi bankarnir staðið frammi fyrir vandræðum. "Eftir að sú staða var uppi held ég að ekki hafi verið líklegt að ætla einhverjum það að bjarga bönkunum," sagði Arnór. Hann tók skýrt fram að hann segði þetta nú þegar hægt væri að horfa til baka og meira væri vitað um eignir bankanna en áður var vitað.

Árið 2006 hefði svo verið orðið ljóst að lánamarkaðurinn í Evrópu væri að lokast á bankana. Við þessar aðstæður hefðu bankarnir hæglega getað fallið. „Við stóðum við framm fyrir því að uppi voru aðstæður sem hefði getað leitt til falls bankanna, " sagði Arnór. Hann sagði að í þessu samhengi væri ekki eðlilegt að tala um minikreppuna 2006 eins og oft er gert.

Eins og fram er komið voru viðbrögð Landsbankans við þessum vanda að auka lánsfé með því að opna Icesave reikningana í Bretlandi. „Ég hygg að margir hafi varpað öndinni léttar þá. Þeir héldu að þeim myndi takast að vinna bug á þessum vanda – en þá vissu menn ekki hvað var á eignahlið þessa banka,‟ sagði Arnór.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×