Innlent

Líkti íslensku bönkunum við Maddoff

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Íslensku bankarnir voru með alþjóðlegar endurskoðunarskrifstofur. Það er því með ólíkindum að reikningar bankanna hafi verið með þeim hætti sem þeir voru sagði, Jón Sigurgeirsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifstofu bankastjórnar Seðlabanka Íslands, fyrir Landsdómi í dag.

Jón bar íslensku bankana saman við Bernie Maddoff sem situr í fangelsi í Bandaríkjunum grunaður um eitt mesta efnahagssvindl sögunnar. Hann hlaut 150 ára fangelsisdóm árið 2009. Jón sagði að Maddoff hefði haft einyrkja í að endurskoða reikninga sína. Íslensku bankarnir hafi hins vegar haft viðurkenndar alþjóðlegar endurskoðunarskrifstofur til að starfa fyrir sig.

Jón sagði, líkt og önnur vitni hafa bent á í dóminum, að ekki hafi verið unnt að selja eignir bankanna á árinu 2008. Það hefði veikt eiginfjárstöðu þeirra að selja eignirnar í flýti. Eins og kunnugt er voru uppi umræður á árinu 2008 um að Kaupþing flytti starfsemi sína úr landi. Sigurður Einarsson ræddi þá stöðu meðal annars í fjölmiðlum. Jón efast um að þetta hefði gengið upp. „Ég efast um að Kaupþing hafi getað það – eða viljað það – því þá hefðu þeir þurft að sýna eignasafnið sitt. Þeir hefðu ekki getað það, " sagði Jón.

Jón Sigurgeirsson var síðasta vitnið sem kom fyrir Landsdóm í dag, en þinghaldi lauk um hálfsexleytið. Á morgun koma svo Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Jónína Lárusdóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu, fyrir dóminn. Auk þeirra koma svo Hreiðar Már Sigurðsson, Guðjón Rúnarsson, Rúnar Gumðundsson og Þorsteinn Már Baldvinsson fyrir dóminn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×