Innlent

Urðu fyrir vonbrigðum með viðbrögð Darlings

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Þór Sturluson segir að viðbrögð Darlings hafi valdið vonbrigðum.
Jón Þór Sturluson segir að viðbrögð Darlings hafi valdið vonbrigðum. mynd/ gva.
Sendinefnd íslenskra ráðherra og embættismanna sem fór til fundar með Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, í byrjun september 2008 varð fyrir miklum vonbrigðum með fundinn. Þetta sagði Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður Björgvins G. Sigurðssonar, fyrrverandi viðskiptaráðherra, fyrir Landsdómi í dag.

Jón Þór átti sæti í sendinefndinni ásamt viðskiptaráðherra og fleirum. „Það sem við ákveðum eftir samskipti við forsvarsmenn Landsbankans og stjórnar Fjármálaeftirlisins er að óska eftir fundi með Alistair Darling. Það var vegna þess að okkur grunaði að pólitík væri farin að blandast inn í ákvarðanir breska fjármálaeftirlitsins," sagði Jón Þór. Þess vegna hafi verið ákveðið að íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn myndu funda með honum. Skilaboðin voru þau að þrátt fyrir að rekstur Landsbankans væri traustur þá væri mikil hætta varðandi fjámögnun hans ef ekki tækist að flytja Icesave-reikninga yfir í dótturfélög Landsbankans. Ekki mætti gera óraunhæfar væntingar um flutning á eiginfé úr Landsbankasamstæðunni yfir í dótturfélagið.

„Viðbrögð Darlings voru mjög sérkennileg. Það sást best á því hversu stóra sendinefnd við sendum hvað við litum málið alvarlegt," sagði Jón Þór. Samt hafi Darling sagt þegar íslenska sendinefndin var að kveðja: „Skiljið þið ekki hvað málið er alvarlegt." Jón Þór sagði að Darling hafi ekkert hlustað á íslensku sendinefndina. Hann hafi haft meiri áhyggjur af því sem var að gerast heimafyrir í efnahagsmálum Breta.

„Hann lýsti yfir vonbrigðum með þennan fund en það voru líka margir fyrir vonbrigðum með viðbrögð Darlings," sagði Jón Þór.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×