Enski boltinn

Anichebe skoraði fyrsta mark ársins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Victor Anichebe var hetja Everton er hann tryggði sínum mönnum 1-0 útisigur á West Brom í annars ansi bragðdaufum fyrsta leik ársins í ensku úrvalsdeildinni.

Anichebe skoraði markið af miklu harðfylgi undir lok leiksins. Paul Scharner, leikmaður West Brom, gerði sig sekan um slæm mistök þegar hann skallaði fyrirgjöf Tony Hibbert beint fyrir fætur Anichebe sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði.

Þetta var fyrsta mark Anichebe í ensku úrvalsdeildinni síðan í mars árið 2010 en hann kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik. Hann hefur átt við meiðsli að stríða í haust og þetta var hans fyrsti leikur síðan í ágúst.

Fram að því hafði lítið markvert gerst í leiknum og óskandi að þessi fyrsti leikur ársins 2012 sé ekki fyrirboði um það sé í vændum í leikjum enska boltans í ár.

Chris Brunt, leikmaður West Brom, var svo tekinn meiddur af velli undir lokin og virtist hann vera nokkuð þjáður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×