Fótbolti

Gylfi: Vil skora snemma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Sigurðsson í leik með Tottenham.
Gylfi Sigurðsson í leik með Tottenham. Nordic Photos / Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson segir í viðtali á heimasíðu Tottenham að markmiðið sé að skora snemma í leik liðsins gegn NK Maribor í Evrópudeild UEFA annað kvöld.

Gylfi skoraði mark Tottenham í 1-1 jafntefli þessara liða þegar þau mættust í Slóveníu fyrir tveimur vikum síðan.

„Það væri best ef við næðum að skora snemma í leiknum," sagði Gylfi. „Það myndi opna leikinn því þá getur Maribor ekki leyft sér að hanga í vörn og verjast."

„Mark myndi líka kveikja í áhorfendum og skapa góða stemningu á vellinum. Það er mikilvægt fyrir okkur."

„Það var erfitt að spila við þá í Slóveníu og það var mikilvægt fyrir okkur að tapa ekki þeim leik. En völlurinn okkar er stærri og vonandi náum við að nýta okkur plássið betur, koma fyrirgjöfum inn í teig og brjóta þá á bak aftur."

Tottenham hefur gert jafntefli í öllum þremur leikjum sínum í J-riðli til þessa. Lazio er í efsta sæti riðilsins með fimm stig og Maribor er með fjögur.

„Þetta er allt í okkar höndum og nú erum við á heimavelli. Vonandi er það nóg til að fá þrjú stig. Við viljum komast upp úr riðlakeppninni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×