Innlent

Segja lögreglu og fangelsismálayfirvöld lofa ólögmætum ívilnunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þeir Annþór og Börkur eru vistaðir í fangelsinu að Litla Hrauni.
Þeir Annþór og Börkur eru vistaðir í fangelsinu að Litla Hrauni.
Verjendur þeirra Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar segjast hafa rökstuddan grun um að lögreglan og fangelsismálayfirvöld séu að bjóða föngum ólögmætar ívilnanir fyrir vitnisburð í máli gegn þeim. Annþór og Börkur eru grunaðir um að hafa orðið samfanga sínum á Litla Hrauni að bana fyrr á árinu.

Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Suðurlands sem komst að þeirri niðurstöðu að vitni væri heimilt að gefa skýrslu nafnlaust. Þetta er í fyrsta sinn sem slík heimild er gefin. Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs, sagði í samtali við Vísi í gær að dómur Hæstaréttar ylli sér miklum vonbrigðum. Með honum væri gengið þvert gegn skýru orðalagi reglugerðar um tilhögun skýrslutöku. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Þegar Vísir talaði við hann í morgun sagðist hann aftur á móti hafa grun um að umræddum ívilnunum væri beitt.

Hólmgeir nefnir sem dæmi ívilnanir með flutningi í annað og mildara fangelsi. „Sé þetta tilfellið er augljóslega um ólögmætt inngrip stjórnvalda að ræða. Slík tilboð verða alla jafna meira heillandi nú þegar dómstólar hafa fallist á að vitnisburður fari fram undir nafnleynd að verjanda og sakborningi fjarstöddum," segir hann. Hólmgeir segir að fyrir liggi að farið verði frammá sjálfstæða rannsókn hvað þennan lið málsins varðar.

„Það er alvanalegt að menn séu fluttir á milli fangelsa," segir Erlendur Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun. Hann bendir á að þegar fangar séu að bera á hvorn annan sakir geti verið erfitt að vista þá saman í fangelsi. Hann vill ekki tjá sig um þetta einstaka mál, sem er í rannsókn lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×